8.8.2007 | 20:39
Dinner at my place
Ég vaknaði nokkuð seint í morgun, seinna en ég ætlaði. Líklega af því að ég fór að sofa undir morgun. Það gekk allt á afturfótunum í morgun hjá mér, sturtan var of lengi að hitna, hárblásarinn bilaður, tannburstinn týndur og ég var alveg viss um að þetta yrði hræðilegur dagur þannig að ég bar mig illa, vældi og kvartaði yfir hinu og þessu en loks fékk vinkona mín mig aðeins út og við fengum okkur kvöldmat á fáförnum veitingastað. Ég fékk mér einhvern pastarétt, hann leit vel út og ég tók svo ærlega til matar míns að það var næstum klúr áfergjan í mér. Vinkona mín horfði skömmustulega í kringum sig og brosti aumlega að þjóninum. Síðan tók ég eftir því að það var maður á næsta borði sem fylgdist með þessum aðferðum og glotti lymskulega. Hann var ótrúlega fallegur. Hárið var brúnt og glansandi og hann hafði fullkomnar hvítar tennur, andlitsfallið ótrúlega sterklegt en samt svo mjúkt. Hann var bara einfaldlega gordjös eins og mamma segir. Hann var samt nokkuð eldri en ég, en samt stóð ég sjálfa mig að því að gá hvort hann væri með trúlofunarhring. Ég brosti til hans og tók aftur til matar míns, aðeins smekklegar í þetta sinn.
Þegar við vinkona mín vorum búnar að borga og á leiðinni út grípur maðurinn í handlegginn á mér og segir eitthvað á erlendu tungumáli. Ég hristi hausinn vonleysislega til að gefa til kynna að ég skilji hann ekki og þá segir hann á góðri ensku "You are pretty, what do you say about dinner at my place?" Ég fann að mér hitnaði í framan og gerði heiðarlega tilraun til að glotta, en ég hef það sterklega á tilfiningunni að þetta hafi verið gretta. Ég minnti hann á að ég hafi verið að borða kvöldmat og ég yrði að fara, vinkona mín biði eftir mér. Hann stóð eftir með sorgarsvip og sárt ennið og ég fer heim, glöð og ánægð og sjálfsálitið í hámarki, þessi dagur var alls ekki svo slæmur eftir allt saman.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.